Náttúran

Á landareigninni eru góðar gönguleiðir og margir fallegir staðir. Vinsælast er að ganga norður Svartárbakka eða upp frá bænum meðfram Gloppulæk. Í læknum eru margir smáfossar, og ofan úr hlíðinni er mikið útsýni yfir dalinn.

Fyrir þá sem vilja krefjandi göngu er upplagt að ganga á Mælifellhnjúk. Hægt er að ganga upp Hnjúkstagl á norðvestanverðum hnjúknum. Sú uppganga tekur a.m.k. 3-4 klst., gönguhækkun er um 830 m. og göngulengdin 4-5 km. Einnig er hægt að aka lengra suður með hnjúknum, suður fyrir Moshól, og fara þar upp stikaða gönguleið sem er talsvert styttri. Útsýnið af hnjúknum er frábært í góðu veðri, og talið að sjáist af honum í tíu sýslur.

Austurdalur er náttúruperla í uppsveitum Skagafjarðar. Um dalinn rennur Austari-Jökulsá, sem er önnur upptakakvísla Héraðsvatna, í stórbrotnu gljúfri. Hið hrikalega Merkigil er nyrst í dalnum og hægt er að ganga yfir það um einstigi. Við bæinn Skatastaði er kláfferja yfir Austari-Jökulsá, og austan árinnar nokkru sunnar er eyðibýlið Ábær. Býlið fór í eyði  árið 1944, en Ábæjarkirkju er vel við haldið er er messað þar einu sinni á sumri, fyrsta sunnudag í ágúst. Til að keyra í Ábæ er farið yfir Monikubrú, en framan við hana er ekki fært á litlum/lágum bílum. Fram dalinn frá Ábæ eru göngu- og reiðleiðir og 8 km framan við Ábæ er Hildarsel. Þar er skáli sem Ferðafélag Skagafjarðar og fleiri reka. Fagrahlíð er 5 km framan við Hildarsel, en þar vex birki í 350-500 m.y.s. Einstakt svæði til gönguferða og náttúruskoðunar.

Drangey er paradís fugla, fuglavina og náttúruskoðara. Reglulegar ferðir eru í eyna á sumrin, og er sigling og uppganga þangað ógleymanlegt ævintýri. Siglt er frá Reykjum á Reykjaströnd og tekur siglingin um 30 mín. en ferðin í heild sinni 3-4 klst. Eyjan er sögufrægur staður og er hennar getið í Grettis sögu. Grettir hafðist við í eynni síðustu æviár sín og var þar veginn. Nánari upplýsingar um Drangeyjarferðir má fá í síma 821 0090.