Dægradvöl

Næsta hestaleiga er aðeins 4 km. frá Sölvanesi, á bænum Lýtingsstöðum. Hægt er að panta stuttar eða langar ferðir í síma 453 8064.

Tvö fyrirtæki bjóða upp á flúðasiglingar á Austari og Vestari Jökulsá. Viking Raftin á Hafgrímsstöðum er aðeins 7 km. frá okkur (s. 823 8300) og Bátafjör er í 11 km. fjarlægð.

Margir stóratburðir úr Sturlunga sögu gerðust í Skagafirði. Félagið Á Sturlungaslóð hefur séð um að merkja helstu sögustaði, bæta aðgengi að þeim og segja frá atburðunum á upplýsingaskiltum. Einnig eru í boði skoðunarferðir með leiðsögn um sögustaði á sumrin. Frekari upplýsingar fást hjá Upplýsingamiðstöðinni í Varmahlíð, s. 455 6161 og á

Víðimýrarkirkja er torfkirkja í umsjá þjóðminjavarðar, skammt frá Varmahlíð. Hún er ein af örfáum varðveittum torfkirkjum á Íslandi, en núverandi kirkja var reist 1834-5. Kirkjan er opin alla daga yfir sumarið frá kl. 9-18.

Glaumbær er kirkjustaður og byggðasafn skammt norðan við Varmahlíð. Torfbærinn í Glaumbæ hýsir Byggðasafn Skagfirðinga og þar er mikill fjöldi muna til að skoða. Tvö timburhús hafa verið flutt á safnasvæðið, Áshús og Gilsstofa. Í Áshúsi er kaffihús og safnverslun auk sýninga á efstu hæð hússins. Í Gilsstofu er skrifstofa safnsins.

Á Tyrfingsstöðum á Kjálka (vegur nr. 759) er verið að endurbyggja torfbæ og útihús á vegum Fornverkaskólans, Byggðasafns Skagfirðinga og fleiri aðila. Upplýsingar um framkvæmdina eru á staðnum, og hægt að skoða hluta hennar. Sé haldið áfram suður Kjálkaveg framhjá Gilsbakka, er komið að Merkigili og hægt að ganga einstigið yfir gilið.

Minjahúsið á Sauðárkróki hýsir m.a. sýninguna ,,Gömlu verkstæðin“ sem er önnur af tveimur fastasýningum safnsins. Þar eru nú vélaverkstæði, og tré-, úr- og söðlasmíðaverkstæði.   Auk þess er nú í húsinu sýningin Gersemar og gleðigjafar, glæsilega uppgerður Ford A, árg. 1930, og uppstoppaður hvítabjörn.

Gestastofa Sútarans er á Sauðárkróki, í einu sútunarverksmiðjunni í Evrópu sem framleiðir leður úr fiskroði. Í verslun gestastofunnar er hægt að kaupa handverk úr leðri og fiskleðri eða fara í skemmtilega skoðunarferð um verksmiðjuna.

Bænhúsið í Gröf á Höfðaströnd er skammt sunnan við Hofsós. Bænhúsið er talið elsta guðshús á Íslandi og eitt af minnstu guðshúsum í kristnum sið. Bænhúsið er opið og ferðamönnum er velkomið að skoða það.

Vesturfarasetrið á Hofsósi er nú með fjórar sýningar í þremur húsum.  Þær segja sögu Íslendinga sem fluttust til Norður-Ameríku á árunum 1850-1914. Á sumrin eru sýningarnar opnar kl. 11-18.